Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 2131, 153. löggjafarþing 987. mál: heilbrigðisstarfsmenn (hámarksaldur heilbrigðisstarfsmanna ríkisins).
Lög nr. 59 21. júní 2023.

Lög um breytingu á lögum um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012 (hámarksaldur heilbrigðisstarfsmanna ríkisins).


1. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Þrátt fyrir 2. mgr. 43. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, er heimilt frá 1. janúar 2024 til 31. desember 2028 að ráða heilbrigðisstarfsmann sem náð hefur 70 ára aldri til starfa við heilbrigðisþjónustu sem ríkið veitir enda felist starfið í beinum samskiptum við sjúklinga, stoðþjónustu eða rannsóknum í tengslum við þjónustu við sjúklinga, eða handleiðslu yngra heilbrigðisstarfsfólks eða nema.
     Ráðning skv. 1. mgr. skal vera tímabundin og að jafnaði vara í eitt ár í senn og aldrei lengur en í tvö ár í senn. Þrátt fyrir 2. mgr. 41. gr. laga nr. 70/1996 má endurnýja tímabundna ráðningu skv. 1. mgr. þar til starfsmaður hefur náð 75 ára aldri. Ráðning skv. 1. mgr. skal þó aldrei vara lengur en til loka þess mánaðar er starfsmaður verður 75 ára.
     Við ráðningu skv. 1. mgr. er heimilt að víkja frá skilyrðum 7. gr. laga nr. 70/1996 um auglýsingaskyldu opinberra starfa, enda hafi heilbrigðisstarfsmanni sem ráða skal áður verið sagt upp starfi á sömu heilbrigðisstofnun á grundvelli 2. mgr. 43. gr. laga nr. 70/1996.

2. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2024.

Samþykkt á Alþingi 9. júní 2023.